Lífið

Tala tungum í Suður-Afríku

Fjölskyldan margtyngda.
Fjölskyldan margtyngda.
Óli Tynes skrifar frá Suður Afríku: Tvítyngdum börnum fjölgar stöðugt á Íslandi sem og annarsstaðar í heiminum. Til dæmis í Suður-Afríku. Þar búa tvær litlar hálf íslenskar telpur. Silja fjögurra ára og Nína tveggja ára. Á Íslandi væru þær Antonsdætur.  En þar sem þær búa í Suður-Afríku er eftirnafn þeirra Ferreira. Foreldrar þeirra eru Björk Ásmundsdóttir, viðskiptafræðingur og Antonie Ferreira, læknir. Þau búa í hafnarborginni Port Elisabeth á suðausturströnd Suður-Afríku.

Silja og Nína fæddust báðar í Suður-Afríku. Þær hafa einu sinni komið heim til Íslands. Þær tala íslensku, ensku, afrikaans og xhosa. Móðir þeirra hefur frá upphafi talað við þær á íslensku, sem og amma þeirra á Íslandi. Hún heimsækir fjölskylduna oft og talar nær daglega við telpurnar í síma þess á milli.

Þá eiga þær Silja og Nína býsnin öll af íslenskum barnabókum og hljóðdiskum og syngja hástöfum íslensk barnalög.

Björk og Antonie tala saman á ensku og hann talar við stelpurnar á afrikaans, sem og amma þeirra Nora. Antonie styður konu sína mjög eindregið í því að systurnar tali góða íslensku.

Á dagheimili systranna eru svo gæslukonurnar af ættbálki xhosa. Þær kenna börnunum að tala og syngja á því máli. Þá kennslu styðja þau Björk og Antonie heilshugar og syngja með dætrum sínum þjóðlög á xhosa.

„Við viljum að börnin eigi rætur og vini sem víðast," segir Björk. „Þetta er er jú bara ein jörð sem við búum öll á."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.