Innlent

Leyfa heiminum að kjósa

Hjörtur Smárason.
Hjörtur Smárason.
Íslenskur markaðsráðgjafi sem setti upp könnun um stuðning þjóða heims við forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum sakar vikuritið Economist um að hafa notað sömu hugmynd og útfærslu í leyfisleysi.

"Það er alveg mögulegt að þeir hafi fengið nákvæmlega sömu hugmynd, svo ég get ekki fullyrt að þeir hafi stolið henni," segir Hjörtur Smárason markaðsráðgjafi.

Hann setti ásamt tveimur öðrum upp netkönnun á vefnum www.if-theworldcouldvote.com, snemma í sumar. Þar getur fólk frá öllum löndum heims merkt við hvort það vill frekar að John McCain eða Barack Obama verði næsti forseti Bandaríkjanna. Niðurstöðurnar eru sýndar grafískt á heimskorti.

Economist setti upp mjög svipaða könnun í síðustu viku, með landakorti sem er afar svipað korti Hjartar og félaga hans. Nafnið á könnununum er svo gott sem það sama.

"Það er mikil tilviljun ef þeir hafa ekki séð síðuna okkar," segir Hjörtur. Hann segir lítið hægt að gera í málinu, annað en að hafa samband við Economist og óska eftir því að upprunalegrar könnunar verði getið.

Tæplega 92 þúsund höfðu í vikulok greitt atkvæði á íslensku síðunni. Niðurstöðurnar eru Obama mjög í hag, um 87 prósent þeirra sem hafa kosið vilja hann frekar en McCain. Ríflega níu af hverjum tíu Íslendingum sem tekið hafa þátt í könnuninni hafa valið Obama.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×