Innlent

Vilja að bankastjórn Seðlabankans víki

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. MYND/Vilhelm

Rafiðnaðarmenn krefjast þess að nú þegar verði breytt um efnahagsstefnu. Stjórn Seðlabanka sé rúin öllu trausti innanlands sem utan og verður að mati rafiðnaðarmanna að víkja ásamt bankastjórum.

Um 100 trúnaðarmenn Rafiðnaðarsambandsins sátu á ráðstefnu á Selfossi í gær og í dag. Þar var fjallað um stöðu efnahags- og vinnumarkaðsmála.

Rafiðnaðarmenn telja að þeim sem stjórnað hafa efnahags- og peningastefnu landsins á undanförnum árum ásamt stjórn Seðlabanka og forstöðumönnum Fjármálaeftirlitsins hafi orðið á gríðarleg og óafsakanleg mistök. ,,Í valnum liggur fjöldi saklausra einstaklinga og heimila, auk þess að atvinnulíf landsins er nánast rústir einar," segir í tilkynningu.

Tilgangslaust er að mati trúnaðarmanna rafiðnaðarmanna fyrir stjórn Seðlabanka og ríkisstjórn að reyna að skýla sér á bak þess að sami stormur geysi annarsstaðar þar sem afrek stjórnenda íslenskrar efnahagsstefnu blasi við. ,,Hvergi er verðbólgan jafnmikil, hvergi er verðlag og vextir jafnhátt. Gjaldmiðill landsins hefur fallið um 72% þegar síðast spurðist til hans. Vísitala hlutabréfa fallið úr 9040 stigum í júlí 2007 og er kominn í dag 716 stig."

Ef Ísland á að ná vopnum sínum segja rafiðnaðarmenn að nú þegar verði að lýsa því yfir að breytt verði um efnahags- og peningastefnu. Þeir vilja að stefnt verði á gjaldmiðilsskipti og inngöngu í ESB. ,,Ef það verði gert lýsa rafiðnaðarmenn sig tilbúna til þess uppbyggingarstarfs sem við blasir."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×