Innlent

Áfengisverð - hið sanna lögmál

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Haftaárin? Nei nei, bara röð í ríkinu.
Haftaárin? Nei nei, bara röð í ríkinu. MYND/Arnþór

Fréttir af 5,25 prósenta meðaltalshækkun á vörum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um nýliðin mánaðamót segja ef til vill takmarkaða sögu. Einhverjir höfðu haft spurnir af allt að 25 prósenta hækkun og til að hafa vaðið fyrir neðan sig drifu menn sig í ríkið á föstudaginn og þegar upp var staðið slagaði velta dagsins hátt í 400 milljónir króna.

Vísir falaðist eftir upplýsingum um þær áfengistegundir sem mest hækkuðu og eins þær sem minnst hækkuðu og kom þá í ljós að mesta hækkunin var nálægt 65 prósentum en eins voru dæmi um að áfengistegund lækkaði um allt að átta prósent. Menn geta svo deilt um það hve miklar upplýsingar það felur í sér að ræða um 5,25% meðaltalshækkun þótt þar sé um kórrétt meðaltal að ræða.

Kóngur vill sigla en birgjar ráða

„Það sem ræður fyrst og fremst álagningunni er innkaupsverð birgja og þeir ráða í raun verðlagningunni," útskýrir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR. „Ríkið ákveður svo áfengisgjöld og skatta á áfengi og svo er um fasta álagningu ÁTVR að ræða sem er föst prósentutala."

Hún segir nýtt verð alltaf taka gildi fyrsta hvers mánaðar og fari það að mestu eftir ákvörðun birgja. „Við höfum í raun engin áhrif á verðið," bætir Sigrún við.

Hún segir ÁTVR almennt ekki greina kauphegðun út frá ákveðnum tegundum en í heildina sé aukning á sölu miðað við árið 2007 sex prósent frá janúar og út október 2008. Til marks um það hve gríðarleg sprenging varð í áfengissölu föstudaginn 31. október, áður en verðið hækkaði, má nefna að söluaukningin var 3,9 prósent frá janúar út september en er nú komin í áðurnefnd sex prósent og segir Sigrún októbermánuð í heild sinni ekki hafa haft úrslitaáhrifin í þeirri aukningu heldur hafi hún mest komið til þennan eina dag, 31. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×