Innlent

Eitt helsta stefnumál Sjálfstæðisflokksins slegið út af borðinu

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson

Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn segir ástæðu til þess að fagna því að hugmyndir um þriggja hæða mislæg gatnamót á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar hafi nú verið slegnar út af borðinu.

„Þau voru eitt helsta stefnumál Sjálfstæðisflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum," segir Dagur í tilkynningu sem hann sendir fjölmiðlum.

„Þetta er niðurstaða samráðshóps um umferðarmál á gatnamótunum en hann var settur á fót að tillögu Samfylkingarinnar. Eftir að hópurinn hafði farið yfir umferðartölur og önnur gögn náðist samstaða um að í stað mislægra gatnamóta á þremur hæðum yrði Miklabraut lögð í stokk en núverandi gatnamót héldu sér að öðru leyti. Útfærsla þessa efnis var lögð fram í samráðshópnum af fulltrúum íbúasamtaka Hlíðahverfis. Niðurstaðan telst ótvírætt til tímamóta.

Verður ekki annað séð en að með henni hafi Sjálfstæðisflokkurinn tekið upp ný viðhorf í samgöngu- og skipulagsmálum Reykjavíkur. Er ástæða til að taka undir orð Gísla Marteins Baldurssonar borgarfulltrúa sem var formaður samráðshópsins um að sérstakt fagnaðarefni sé að þetta áratuga deilumál hafi nú leyst í sátt. Fulltrúi Samfylkingarinnar í samráðshópnum var Stefán Benediktsson varaborgarfulltrúi og arkitekt."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×