Erlent

Rannsaka hvort Fritzl hafi komið fyrir banvænu gasi í kjallaranum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Lögregla í Amstetten í Austurríki rannsakar nú hvort fjölskyldufangavörðurinn og sifjaspillirinn Josef Fritzl hafi komið búnaði fyrir í kjallaradýflissu sinni sem losa myndi banvænt gas út í andrúmsloftið ef fangarnir, hans eigin fjölskylda, reyndu að flýja. Byggist rannsóknin á ummælum sem Fritzl á að hafa látið falla í fyrstu yfirheyrslunni eftir að hann var handtekinn.

Mágkona Josefs, Christine R, segir í viðtali við dagblaðið Österreicher Zeitung að Josef hafi farið niður í kjallara klukkan níu á hverjum morgni. Hafi hann sagst vinna þar að teikningum vegna verkefna sem hann sinnti fyrir ýmsa aðila. „Stundum dvaldi hann í kjallaranum næturlangt og leyfði konunni sinni ekki einu sinni að færa sér kaffi," sagði Christine.

Rannsóknaraðilar velta því einnig fyrir sér hvort Fritzl hafi haft í hyggju að binda enda á fangavist dóttur sinnar og barnanna í kjallaranum. Lögregla hefur undir höndum bréf sem dóttirin Elisabeth skrifaði, augljóslega að skipun föður síns. Er bréfið til foreldranna og útskýrir Elisabeth þar að hana langi gjarnan að snúa heim en það sé bara ekki hægt í bili.

Austurrísk yfirvöld íhuga að gefa fórnarlömbum Fritzls kost á að breyta nöfnum sínum á þeirri forsendu að ættarnafnið hafi verið atað aur við rekstur málsins.

CNN greindi frá þessu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.