Innlent

Sænskur bankasérfræðingur kemur í stað Ásmundar Stefánssonar

Ásmundur Stefánsson er kominn til starfa fyrir Landsbankann.
Ásmundur Stefánsson er kominn til starfa fyrir Landsbankann.

Forsætisráðuneytið hefur ráðið til tímabundinna starfa Mats Josefsson, sænskan bankasérfræðing. Mats tekur við þeirri stöðu sem Ásmundur Stefánsson hefur gegnt við uppbyggingu bankakerfisins.

Starf þetta er skilgreint í 5. grein samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) þar sem segir: „Ákveðið skipulag er komið á við skil yfirteknu bankanna og leiðir til að hámarka heimtur eigna með gagnsæjum hætti. Stefna okkar að þessu leyti hefur verið útfærð nánar að undanförnu. Virtur bankasérfræðingur var skipaður til að stýra endurskipulagningu bankanna. Sérfræðingurinn starfar á vegum forsætisráðherra og ber ábyrgð á að þróa, innleiða og skýra frá heildstæðri aðgerðaáætlun um endurskipulagningu bankanna. Til að samræma stefnu og aðgerðir stjórnvalda hefur verið skipuð nefnd sem bankasérfræðingurinn stýrir og í eiga sæti fulltrúar frá forsætisráðuneyti, Fjármálaeftirliti, Seðlabanka, fjármálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og viðskiptaráðuneyti."

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að Ásmundur Stefánsson hafi fram að þessu sinnt þessu starfi en þegar hann hafi verið skipaður formaður bankastjórnar Landsbankans hafi verið ákveðið að hann myndi ekki gegna því áfram. Þann tíma sem hann hafi sinnt báðum störfum hafi þess verið gætt að hann hefði ekki haft aðgang að gögnum sem tengist hinum bönkunum. Ásmundur hafi að auki haft yfirumsjón með þeim margvíslegu starfshópum sem starfað hafi í kjölfar bankahrunsins fyrir hönd forsætisráðherra og verið tengliður milli þeirra innbyrðis og gagnvart forsætisráðherra og ríkisstjórn.

Þá segir að Mats Josefsson sé reynslumikill bankamaður. „Hann starfaði í 13 ár hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en var áður aðstoðarforstjóri sænska fjármálaeftirlitsins og þar á undan forstöðumaður í sænska seðlabankanum. Hann stýrði eftirliti með bankastarfsemi í Svíþjóð á árunum 1990 - 1994 á tímum bankakreppunnar þar og öðlaðist þannig einstaka reynslu sem vonast er til að nýtist Íslendingum við þær aðstæður sem nú eru uppi. Josefsson lék sömuleiðis stórt hlutverk í milligöngu AGS í uppbyggingu bæði í Tyrklandi og Tælandi eftir bankakreppu sem þau lönd glímdu við frá því um og eftir aldamótin," segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×