Fótbolti

Útsendarar margra liða á Laugardalsvellinum í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Meðal annars verður vel fylgst með Pálma Rafni Pálmasyni í kvöld.
Meðal annars verður vel fylgst með Pálma Rafni Pálmasyni í kvöld. Mynd/Vilhelm

Útsendarar margra liða, sér í lagi frá Englandi og Norðurlöndunum, verða á Laugardalsvellinum til að fylgjast með nokkrum íslenskum landsliðsmönnum.

Samkvæmt heimildum Vísis er mikill áhugi fyrir Gunnari Heiðari Þorvaldssyni, leikmanni Hannover 96 sem er nú í láni hjá norska úrvalsdeildarliðinu Vålerenga. Hann hefur ekki fengið fast sæti í byrjunarliði Vålerenga og gæti því verið tregur til að semja við félagið sem vill þó halda honum.

Það þykir þó nokkuð víst að hann muni ekki snúa aftur til Þýskalands og því er verið að fylgjast vel með hans framgangi.

Þá verður einnig fylgst með Aroni Einari Gunnarssyni sem er á mála hjá AZ Alkmaar í Hollandi. Hann hefur hins vegar afar fá tækifæri fengið í aðalliði AZ og hefur hann margítrekað það að hann vilji fara til annars félags þar sem hann fengi að spila meira.

Valsmennirnir Pálmi Rafn Pálmason og Birkir Már Sævarsson hafa einnig verið undir smásjá margra liða sem fá nú kjörið tækifæri til að sjá þá taka þátt í stóru verkefni.

Undanfarna daga hafa fulltrúar norska úrvalsdeildarfélagsins Brann verið staddir hér á landi bæði til að fylgjast með leikjum í úrvalsdeildinni sem og starfi yngri flokka í mörgum félögum. Brann hefur góða reynslu af íslenskum knattspyrnumönnum og hefur því mikinn áhuga á að horfa líka til framtíðar í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×