Innlent

Byko dæmt til að greiða tæpar sex milljónir í bætur vegna vinnuslyss

Hæstiréttur dæmdi í dag Byko til að greiða fyrrverandi starfsmanni sínum tæpar sex milljónir króna í skaðabætur, auk vaxta, vegna vinnuslyss.

Tildrög slyssins voru þau að stúlkan, sem var sautján ára þegar slysið varð, og önnur stúlka fluttu þungt vörubretti á hjólatrillu. Til að forða því að trillan lenti á viðskiptavini urðu þær að breyta akstursstefnu trillunnar með þeim afleiðingum að stúlkan klemmdist. Dómurinn telur óumdeilt að þungi varningsins á vörubrettinu sem stúlkan flutti með trillunni milli staða í verslun Byko hefði verið u.þ.b. 1,6 tonn. Vitni báru að stúlkurnar hefðu áður flutt farm á milli staða í versluninni á trillunni.

Farmurinn of þungur

Stúlkurnar sögðu þó báðar fyrir dómi að ekki hefði fyrr verið um svo þungan farm að ræða. Talið var sannað með framburði stúlkunnar og samstarfsfólks hennar að stúlkurnar hefðu ekki fengið leiðbeiningar um það hvernig þær hefðu átt að bera sig að við flutninginn. Stjórnendur Byko andmæltu þeirri staðhæfingu stúlkunnar að þær hefðu fengið tilmæli um að fara með farminn á trillunni umrætt sinni. Forsvarsmenn Byko byggðu þó ekki á því að ætluð sök stúlkunnar hefði falist í því að hafa notað trilluna umrætt sinn, heldur eingöngu á því að stúlkurnar hefðu farið of hratt yfir. Sönnun um bein fyrirmæli umrætt sinn skipti því ekki máli við úrlausn málsins.

Dómurinn féllst á rök stúlkunnar

Fallist var á með stúlkunni að verkið hefði verið ofvaxið líkamlegu atgervi hennar og að það hefði verið andstætt ákvæðum í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar sem kveðið er á um bann við að fela unglingum störf við ákveðnar aðstæður. Samkvæmt þessu var Byko dæmt til að greiða stúlkunni skaðabætur. Ekki var talið sannað að stúlkan og samstarfskona hennar hefðu sýnt af sér gáleysi með því að fara of hratt yfir með trilluna og var því ekki talið efni til að lækka bætur til stúlkunnar vegna eigin sakar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×