Innlent

Ríkisendurskoðun fylgist með ráðstöfun bankafjár

MYND/GVA

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur sent forseta Alþingis og forsætisnefnd þingsins bréf þar sem farið er fram á að Ríkisendurskoðun verði tafarlaust falið að kanna með hvaða hætti stofnunin skuli nú koma sem endurskoðunar- og eftirlitsaðili að ráðstöfun þeirra miklu fjármuna sem nú séu komnir í ríkisins hendur með yfirtöku bankanna.

Í tilkynningu frá Vinstri - grænum segir að það sé mat þingflokksins að óumflýjanlegt sé að Ríkisendurskoðun komi þegar að þeim þáttum sem á hennar verksviði eru og verða í framhaldinu. Lýtur það bæði að endurskoðun þeirra banka sem stofnaðir hafa verið í eigu ríkisins sem og að endurskoðun þeirra móðurfélaga sem ríkið hefur yfirtekið og eru nú í höndum opinberra skilanefnda.

Ríkisendurskoðun þurfi að geta sinnt þessu verkefni vel og jafnvel ráðið sér til aðstoðar virt alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki eða fá aðstoð annarra sérfræðinga á þessu sviði. Gríðarlegir almannahagsmunir séu í húfi og útilokað annað en að opinbert eftirlit og opinber endurskoðun komi til, þar með taldar eignayfirfærslur, milliuppgjör og fjárhagsleg skil við aðilaskiptin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×