Innlent

Vilja tafarlausa rannsókn á falli Glitnis

Um 40 til 50 manns komu saman í dag fyrir utan húsnæði Ríkissaksóknara þar sem yfirtöku ríkisins á Glitni á sínum tíma var mótmælt. Að sama tilefni var lögð fram krafa frá Röddum fólksins þar sem Ríkissaksóknari er beðinn um tafarlausa rannsókn á falli Glitnis á grundvelli tíunda kafla hegningarlaga. Tilkynning hópsins er svohljóðandi:

„Ljóst er að þrátt fyrir þrálátan orðróm um meinta refsiverða háttsemi þáttakenda í falli Glitnis og setningu neyðarlaga í kjölfarið hefur dómsvaldið enn ekki hafist handa um rannsókn málsatvika.

Á síðustu dögum hefur komið fram að endurskoðendur stærstu hluthafa Glitnis hafa mánuðum saman verið í fullri vinnu við að endurskoða sjálfa sig án vitneskju yfirstjórnar Fjármálaeftirlitsins og bankamálaráðherra um meint ólögmæt hagsmunatengsl.

Þá hefur einnig komið fram að formann bankastjórnar Seðlabankans og forsætisráðherra greinir á um grundvallaratriði í undanfara Glitnis og fjármálaráðherra er uppvís af missögnum og grundvallarþekkingarleysi í aðkomu að málinu.

Í þessari grafalvarlegu stöðu, þar sem sjálfurm grundvelli réttarríkisins er ógnað af þeim síst skyldu, hefur dómsvaldið brugðist skyldum sínum. Ljóst er að dómsmálaráðherra hefur sýnt vítavert sinnuleysi í viðbrögðum við einum stærsta vanda sem dunið hefur yfir þjóðina. Dómsmálaráðherra ber því að axla ábyrgð og segja tafarlaust af sér."

Uppákoman í dag er liður í aðgerðum sem boðaðar hafa verið af þeim sem staðið hafa fyrir mótmælunum á Austurvelli undanfarna laugardaga. Næstkomandi laugardag verður breyting gerð á því í stað hefðbundinna ræðuhalda er áformað að fundargestir lúti höfði í 17 mínútna þagnarstund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×