Innlent

Koníaksflaska á 300 þúsund krónur í ÁTVR

Það er líklega frábær fjárfesting að kaupa dýrustu flöskuna í ÁTVR. Hún er forláta koníak og kostar þrjúhundruð þúsund krónur, sem þykir víst afar ódýrt.

Um er að ræða Frapin Cuvee Grande Champagne koníak frá árinu 1888, eða 120 ára gamalt vín. Í ríkinu kostar þessi kostagripur, sem er 70 sentilítrar, rétt tæpar 300 þúsund krónur, eða tæplega 13 þúsund krónur sjússinn. Flaskan er handgerð, tappinn og skrautið er húðað 24 karata gulli, kassinn er handsmíðaður, auk þess sem flöskunni fylgir gullhúðaður staukur með mirru.

En ef maður skoðar uppboðsvefinn e-bay kemur í ljós að uppsett verð þar er 10 þúsund dollarar, eða ein milljón eitthundrað og þrjátíu þúsund krónur um það bil, miðað við gengið í dag. Það gæti því verið dágóður hagnaður að kaupa þessa dýrstu flösku sem ÁTVR hefur til sölu og selja í öðru landi. Þess má geta að áfengisgjald er lagt á óháð gæðum, þannig að sama gjald er á þessum guðaveigum og öðru yngra og líklega síðra koníaki. En rétt er að geta þess að aðeins tvær flöskur komu til landsins og báðar eru óseldar - ennþá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×