Innlent

Geir ræddi við Brown í morgun

MYND/AP

Geir H. Haarde forsætisráðherra ræddi í morgun við Gordon Brown, starfsbróður sinn í Bretlandi, um þá erfiðu stöðu sem upp er komin á evrópskum fjármálamarkaði, en þar hafa hlutabréf hríðfallið í verði í morgun.

Fram kemur á fréttavef Bloomberg að Brown hafi einnig rætt við Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og fulltrúa Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í frétt Bloomberg kemur fram að aukinn þrýstingur sé nú á Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, að breska ríkið kaupi hluti í breskum bönkum og víkki út ábyrgðir ríkisins á fjármunum almennings í bönkum landsins. Með því megi draga úr áhrifum hinnar alþjóðlegu lausafjárkreppu.

Bloomberg segir einnig að stjórn Browns skoði nú hvaða áhrif það hafi að yfirvöld í Þýskalandi ákváðu að tryggja allar innistæður í þýskum bönkum. Búist er við að Alistair Darling lesi upp yfirlýsingu á breska þinginu síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×