Innlent

Stofnandi Saving Iceland fyrir rétt á morgun

Ólafur Páll Sigurðsson.
Ólafur Páll Sigurðsson. MYND/Vilhelm

Ólafur Páll Sigurðsson, stofnandi Saving Iceland, sem mótmælt hafa Kárahnjúkavirkjun síðustu ár, verður kallaður fyrir Héraðsdóm Austurlands á morgun ákærður fyrir eignaspjöll. Í tilkynningu frá samtökunum segir að Ólafur sé ákærður fyrir að valda tjóni á lögreglubifreið en að í raun hafi ökumaður bifreiðarinnar ekið á Ólaf.

„Öll borgaraleg vitni segja að fjórhjóladrifsjeppa lögreglunnar hafi viljandi verið ekið á Ólaf Pál á hraða sem gat haft lífshættu í för með sér," segir í tilkynningunni. „Ökumaðurinn, Arinbjörn Snorrason, lögregluþjónn nr. 8716 og háttsettur við stjórn aðgerðanna við Kárahnjúka, reyndi einnig að aka yfir aðra mótmælendur við mörg önnur tækifæri þetta sumar sem og við Lindur (nú undir vatni en þar voru mótmælabúðir Saving Iceland) og við mótmælaaðgerðir á byggingarsvæði Desjarárstíflu."

Meðlimir samtakanna segja að lögreglan hafi komið á bílnum til þess að áreita mótmælendur og ögra þeim. „Lögreglan ljósmyndaði mótmælendur úr kyrrstæðum bílnum þar sem þeir voru í biðröð fyrir utan matartjald. Lítill hópur fólks, þeirra á meðal Ólafur Páll, gekk í átt að lögreglubílnum. Skyndilega, og án nokkurrar viðvörunar, ók Arinbjörn snöggt og hratt í átt að Ólafi Páli og síðan á hann. Allir sem á horfðu undruðust að hann skyldi sleppa frá árásinni tiltölulega óskaddaður."

Þá segir að Ólafur hafi lagt fram kæru vegna atviksins en að Ríkissaksóknari hafi lýst því yfir að ekki væri ástæða til að aðhafast í málinu. „Þrátt fyrir að allmörg borgaraleg vitni væru reiðubúin að bera vitni gegn lögreglunni var aldrei haft samband við þau til að gefa skýrslu. Ríkissaksóknari neitaði að hefja nokkra rannsókn á atviki því sem leitt hefði getað til dauða Ólafs Páls, nema auðvitað að tala við árásarmennina sem lögðu fram gagnákæru. Nú, tveim árum síðar, er málið tekið fyrir við héraðsdóm."

Meðlimir Saving Iceland létu víða til sín taka síðasta sumar.MYND/365

Samtökin segja að ákæruvaldið krefjist þess að Ólafur Páll greiði fyrir skemmdir á bílnum og að honum verði refsað samkvæmt lögum. Þegar atvikið átti sér stað var enn í gildi yfir Ólafi Páli skilorðsdómur yfir Ólafi sem hann hlaut fyrir að sletta skyri á gesti á ráðstefnu í Reykjavík í júní 2005. „Af því leiðir að ef Ólafur Páll verður sekur fundinn um að hafa skemmt lögreglubílinn kann hann að verða hnepptur í fangelsi."

Talsmaður Saving Iceland segir einnig í tilkynningunni að verði niðurstaða málsins sú að Ólafur Páll þurfi að sæta fangelsisvist verði hann „augljóslega pólitískur fangi íslenska ríkisins. Íslensk stjórnvöld þurfa ekki að ímynda sér að þau geti leynt svo hneykslanlegri misbeitingu réttarfars fyrir alþjóðasamfélaginu."Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.