Fótbolti

Rússar fylgja Spánverjum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Rússar unnu sannfærandi sigur á Svíum í kvöld.
Rússar unnu sannfærandi sigur á Svíum í kvöld.

Rússland vann Svíþjóð 2-0 í D-riðli Evrópumótsins í kvöld. Þetta var hreinn úrslitaleikur um hvort liðið myndi fylgja Spánverjum í átta liða úrslitin. Svíum hefði dugað jafntefli til að komast áfram.

Rússar byrjuðu leikinn mun betur og komust yfir með marki frá Roman Pavlyuchenko á 24. mínútu. Eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik bætti síðan Andrey Arshavin við öðru marki.

Svíar bættu í sóknina en fundu ekki leiðina að markinu. Rússar fengu nokkur afbragðs færi til að skora þriðja markið þegar þeir komust gegn fáliðaðri vörn Svía. Fleiri urðu mörkin hinsvegar ekki og úrslitin 2-0. Svíar eru því á heimleið.

Leikur Grikklands og Spáns skipti engu máli. Ljóst var að Spánverjar voru búnir að tryggja sér áfram og Grikkir úr leik. Angelos Charisteas kom Grikkjum yfir í lok fyrri hálfleiks en Ruben De la Red jafnaði í seinni hálfleik. Daniel Guiza tryggði Spánverjum 2-1 sigur undir lok leiksins.

Þar með er riðlakeppni Evrópumótsins lokið og átta liða úrslitin taka við á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×