Lífið

Amy forrík þrátt fyrir sukkið

Endalaust sukk, líkamsárásir og meðferðir virðast ekki hafa haft tilfinnnanleg áhrif á fjármál vandræðabarnsins Amy Winehouse. Söngkonan er metin á tíu milljónir punda, eða tæpan einn og hálfan milljarð króna, og situr nú í fyrsta sinn á lista Sunday Times yfir ríkustu ungu tónlistarmennina. Hann mælir auðæfi breskra tónlistamanna undir þrítugu.

Meðal annarra nýrra á listanum eru X-factor sigurvegarinn Leona Lewis, og Corrine Bailey Rae, báðar metnar á sex milljónir punda. Þær eiga þó allar langa leið fyrir höndum á topp listans. Þar situr sonur bítilsins George Harrison, Dhani, metinn á 160 milljónir punda, eða rúma 23 milljarða króna. Fiðluleikarinn Vanessa Mae er langt á eftir í öðru sæti, en áætlað virði hennar er 32 milljónir punda.

Þessar fjárhæðir eru þó einungis klink í samanburði við heildarlistann yfir tónlistarmenn. Þar trónir efst Clive Calder, stofnandi Zomba Records með auðæfi upp á 1,3 milljarða punda. Skilnaður bítilsins Pauls McCartney við Heather Mills saxaði sjóði hans úr 725 milljónum punda í fimmhundruð. Hann situr þó enn í þriðja sæti listans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.