Innlent

Íslendingur stýrir aðstoðinni á Gaza

Pálína Ásgeirsdóttir.
Pálína Ásgeirsdóttir.

Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa vart undan við að aðstoða særða á Gazasvæðinu. Mikið öngþveiti ríkir á sjúkrahúsum þar sem erfitt er að annast allan þann fjölda særðra borgara sem leitar sér aðhlynningar. Um 350 manns hafa látið lífið í árásum Ísraelshers, og að minnsta kosti 1.000 manns hafa særst. Íslenskur sendifulltrúi stýrir aðstoð Rauða krossins á svæðinu.

„Ástandið er gífurlega alvarlegt," segir í tilkynningu frá Rauða krossinum. „Lyfjabirgðir sjúkrahúsa eru næstum uppurnar. Unnið er á gjörgæslu- og skurðstofum allan sólarhringinn. Forgangsverkefni Alþjóða Rauði krossins er að aðstoða sjúkrahús á Gazasvæðinu. Síðustu tvo daga hefur Alþjóða Rauði krossinn dreift nauðsynlegum birgðum til heilbrigðisstofnana svo sem sáraumbúðum, deyfi- og verkjalyfjum, blóði, blóðvökva og öðrum hjálpargögnum."

Þá segir að Pálína Ásgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og einn reyndasti sendifulltrúi Rauða kross Íslands á átakasvæðum, stýrir aðstoð Alþjóða Rauða krossins við sjúkrahús á herteknu svæðunum. „Alþjóða Rauði krossinn áminnir stríðandi fylkingar að fara eftir alþjóðlegum mannúðarlögum þar sem bannað er að beina árásum að óbreyttum borgurum og valda þeim óbærilegum skaða."

Rauði krossinn bendir á að stríðandi fylkingum beri að vernda óbreytta borgara og virða reglur Genfarsamninganna í hvívetna. „Samstarf Rauða kross Íslands við Rauða hálfmánann í Palestínu hófst árið 1993. Félagið hefur stutt verkefni á svæðinu síðan og hefur meðal annars notið framlaga frá íslenska ríkinu. Frá árinu 2002 hafa Rauði kross Íslands og Rauði krossinn í Danmörku unnið að verkefni um sálrænan stuðning við palestínskt börn á aldrinum 10-12 ára til að hjálpa þeim að takast á við áhrif stríðsátaka á daglegt líf."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×