Íslenski boltinn

80 prósent leikja um helgar og á mánudögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik ÍA og KR í sumar.
Úr leik ÍA og KR í sumar. Mynd/Gísli Baldur

Í morgun var birt drög að leikjaniðurröðun í Landsbankadeild karla. 80 prósent leikjanna fara fram um helgar og á mánudögum.

Flestir leikir fara fram á sunnudögum, 54 talsins. Það gera rúm 40 prósent allra leikja á mótinu. Næstflestir leikir fara fram á mánudögum, 33 talsins. Það gera 25 prósent allra leikja.

Tuttugu leikir fara fram á laugardögum (15,2%) og er því ljóst að langflestir leikjanna - 80 prósent - fara fram um helgar og mánudögum.

Margir leikmenn mótmæltu þeirri fyrirætlan að vera með fasta leikdaga á sunnudögum og mánudögum í sumar. Sögðu þeir að þetta gerði það að verkum að um helgar gæfist minni tími fyrir þá að sinna fjölskyldum sínum.

Leikmenn sögðu að þeir vildu frekar að leikirnir færu flestir fram á miðvikudögum og fimmtudögum. Aðeins 20 leikir fara fram á þeim dögum - innan við fimmtán prósent. Fimm leikir fara fram á miðvikudögum í sumar og fimmtán á fimmtudögum.

Leikjaniðurröðun Landsbankadeildar karla eftir dögum:

Laugardagar: 20 leikir (15,2%)

Sunnudagar: 54 leikir (40,9%)

Mánudagar: 33 leikir (25%)

Þriðjudagar: 5 leikir (3,8%)

Miðvikudagur: 5 leikir (3,8%)

Fimmtudagar: 15 leikir (11,4%)

Föstudagar: 0 leikir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×