Innlent

Rannsóknarnefnd á gráu svæði

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.

Lárentínus Kristjánsson, formaður Lögmannafélags Íslands segir skipan hæstaréttardómara í rannsóknarnefnd um bankahrunið á gráu svæði - og af slíku svæði eigi menn að forða sér. Dómsmálaráðherra deilir ekki áhyggjum manna af sjálfstæði Hæstaréttar.

Þrír menn eiga að sitja í rannsóknarnefnd um bankahrunið. Nefndin verður leidd af hæstaréttardómara. Ekki eru allir ýkja hrifnir af þeirri hugmynd, meðal annarra Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður sem í grein í Morgunblaðinu fyrir helgi sagði að ef hæstaréttardómari færi fyrir rannsóknarnefndinni yrði Hæstiréttur eins og hann leggur sig vanhæfur til dómsstarfa í málum sem tengjast falli bankanna.

Lárentínus Kristjánsson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir setu hæstaréttardómara í nefndinni klárlega á gráu svæði og þegar á slík svæði sé komið eigi að forða sér. Félagið sé að rýna í frumvarpið og skili ítarlegri umsögn í vikunni. Eiríkur Tómasson lagaprófessor sagði í samtali við fréttastofu í dag að óheppilegt gæti verið að skipa dómara í nefndina en hann á síður von á að það leiði til vanhæfis Hæstaréttar.

Fréttastofa sendi Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra fyrirspurn um þessar efasemdir löglærðra manna. Hann svaraði í tölvupósti, stutt og laggott. „Ég er ekki sammála Sigurði."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×