„Nekt fyrir mér er ekki mikið mál ef hún hefur tilgang," svarar Vigdís Másdóttir leiklistarnemi þegar Vísir spyr hana hvort það hafi verið mikið mál að bera brjóstin í þágu listarinnar en hún túlkar ófrjósemi kvenna á ljósmyndasýningunni Egglost sem var opnuð á veitingahúsinu B5 í Bankastræti í gær.
„Í skólanum erum við hvött til að spyrja sífellt spurninga og nálgumst viðfangsefnin okkar með forvitni og hugrekki og þá er lykilspurningin af hverju. Í þessu tilfelli var hugmyndin mjög skýr svo að annað hefði verið skrítið," segir Vigdís.

„Þetta hefur mikið hjálpað mér í allri minni sköpun og kom sterkt inn í vinnuna með Lilju, Ingunni og Þórdísi."
„Í mínu starfi klæðist ég yfirleitt búningum og það að vera nakin væri líka búningur. Það sem við leikararnir lærum er að þó svo að við séum það sem við gerum þá verðum við líka að læra að aðskilja prívatið frá faginu. Við erum alltaf að nota okkur sjálf svo að aðskilnaðurinn verður auðvitað aldrei fullkominn en við verðum að geta þetta upp að vissu marki."

„Vinnan með stelpunum var fyrst og fremst skemmtileg. Nú hef ég starfað hin ýmsu störf í hinum ýmsu miðlum og ég hef aldrei verið á eins huggulega setti. Stelpurnar vinna mjög vel saman. Þær hafa allar mjög sterkar skoðanir og þær voru ekki alltaf þær sömu en það var allt rætt í mestu vinsemd því allar voru þær að vinna að sama markmiðinu."

„Þær voru með storyboard, sem er sagan teiknuð á blað, en þær voru alltaf tilbúnar í samtal ef myndin var ekki að virka. Eins skildu þær eftir smá rými fyrir mig til að finna leið til finna tilfinninguna."
„Ég held að það skili sér á myndunum. Ég fékk að gera mitt og ég er mjög þakklát fyrir það. Þær treystu mér fyrir því og gáfu mér pláss til að vinna mína vinnu. Þær sköpuðu mjög afslappað andrúmsloft og voru mjög frjóar og þá getur ekki verið annað en yndislegt að vinna," segir Vigdís að lokum.