Innlent

Kynjaskipt leikföng í barnaboxum McDonald’s

Nanna Hlín Halldórsdóttir skrifar

Nú þegar Evrópumótið í fótbolta er hafið eru komin ný leikföng í barnabox McDonald´s skyndibitakeðjunnar, fóboltamyndir af leikmönnum í keppninni. Myndirnar eru hins vegar ætlaðar strákum en fyrir stúlkurnar eru leikföng tengd dansi. McDonald's á Íslandi fær leikföngin að utan en segir þetta fara eftir því sem flestir krakkarnir vilja. Helena Ólafsdóttir, þjálfari KR í Landsbankadeild kvenna telur að það ætti að vera sömu leikföng eða að minnsta kosti val.

Magnús Ögmundsson, framkvæmdastjóri Lystar ehf., tjáði Vísi að í 70% tilvika væru leikföng í barnaboxum kynjaskipt. Hann segir að ekki sé mikið um að stelpur biðji um strákaleikföng í staðinn en að það komi fyrir og það sé alveg sjálfsagt að láta þær fá þau leikföng. Hann hafi gert ráð fyrir að í kringum Evrópumótið myndu einhverjar stúlkur biðja meira um fótboltamyndirnar og því pantað meira af þeim en stelpuleikföngunum. McDonalds á Íslandi fær leikföng sín að utan þannig að allir flestir krakkar í Evrópu fá sams konar leikföng.

„Það er bara svoleiðis að strákarnir vilja bílanna og stelpurnar dúkkurnar. Fyrir tveimur árum voru í boði fótboltaleikföng fyrir bæði kynin en því var líklegast ekki vel tekið í Evrópu því nú var ákveðið að hafa önnur leikföng fyrir stelpur í stað fótboltamynda." segir Magnús. Hann segir að þetta sé spurning um hvað flestir vilja en að það sé ekkert mál að taka tillit til sérbeiðna.

Vísir leitaði eftir viðbrögðum Helenu Ólafsdóttur, þjálfara KR í Landsbankadeild kvenna. Hún taldi að það væri snjallt að hafa val þannig að þær gætu átt kost á fótboltamyndunum án þess að þurfa að biðja sér um það. Um málið sagði hún ,,Áhugasvið stúlkna er náttúrulega jafn fjölbreytt og hjá strákum og það getu vel verið að margar stelpur langi í svona myndir."

Hún tók það þó fram að þetta gæti farið eftir aldri barna, þau yngstu hefðu ekki jafn mótaðar skoðanir en hins vegar hafi verið mikill aukning meðal stelpna að æfa fótbolta. Þær séu byrjaðar að spá í fotboltann mjög ungar og þekki gjarnan mörg nöfn á þeim fótboltamönnum sem keppi á stórmótum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×