Íslenski boltinn

Verður Keflavík Íslandsmeistari á æfingu?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Anton

Sú einkennilega staða gæti komið upp á morgun að Keflavík verði Íslandsmeistari í knattspyrnu á morgun ef úrslit í leik FH og Breiðabliks verða liðinu hagstæð. Keflvíkingar ætla ekki í Kaplakrika - heldur á æfingu.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, sagði í samtali við Vísi að þeir væru ekkert að hugsa um leik FH og Breiðabliks á morgun.

„Okkur langar alltaf að verða Íslandsmeistarar, sama þótt það sé á morgun eða um helgina," sagði Kristján. „En við getum ekki haft nein áhrif á þennan leik og einbeitum okkur algjörlega að okkar leik um helgina."

Hann viðurkennir þó að það gæti breytt heilmiklu ef Keflavík yrði Íslandsmeistari á morgun. „En sama hvað gerist ætlum við að einbeita okkur að okkar leik."

Kristján segir að hans menn munu ekki mæta á Kaplakrikavöll á morgun. „Nei, það er æfing hjá okkur," sagði hann.

Leikur FH og Breiðabliks hefst klukkan 16.30 á morgun en það er frestaður leikur úr 18. umferð. Sem stendur er Keflavík með fimm stiga forystu á FH þegar aðeins ein umferð er eftir en það þýðir að FH verður að vinna Breiðablik á morgun til að eiga möguleika á því að ná Keflavík að stigum í lokaumferðinni. Jafntefli dugir FH-ingum ekki.

Keflavík mætir Fram í lokaumferðinni á heimavelli á laugardaginn klukkan 16.00 en FH fer í heimsókn í Árbæinn þar sem liðið mætir Fylki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×