Lífið

Norskur safnari leitar að rithönd Þorsteins Pálssonar

Jan biðlar nú til Þorsteins Pálssonar fyrrum forsætisráðherra um að senda sér eiginhandaráritun.
Jan biðlar nú til Þorsteins Pálssonar fyrrum forsætisráðherra um að senda sér eiginhandaráritun.

Jan Syvertsen er fjörutíu og tveggja ára gamall íbúi í Søgne í Noregi. Hann hefur safnað eiginhandaráritunum í rúmlega tuttugu og fimm ár. Jan safnar nú aðallega áritunum frá þjóðarleiðtogum og stjórnmálamönnum. Hann á nokkrar íslenskar áritanir og biðlar nú til Þorsteins Pálssonar og Ingibjargar Sólrúnar um að senda sér rithönd sína. Jan á samtals 366 áritanir.

„Þetta byrjaði nú bara þegar ég var ungur strákur. Þá fór ég á knattspyrnuleiki hjá liðum hér í Noregi og fékk áritanir hjá leikmönnum. Síðan byrjaði ég að skrifa bréf til leikara, tónlistarmanna og fleiri. Nú einbeiti ég mér aðallega að þjóðarleiðtogum," segir Jan þegar Vísir heyrði í honum.

Jan á samtals 366 áritanir og geymir þær í tveimur aðskildum möppum. Önnur mappan er með fólki frá norðurlöndunum en hin fyrir aðrar heimsálfur. Flestar áritanirnar hefur hann fengið með bréfaskriftum en á síðustu árum hefur hann mikið notað tölvupóst.

„Síðan hef ég keypt nokkrar en enga hef ég fengið með því að hitta manneskjuna," segir Jan sem heldur mest upp á áritun frá fyrrum forseta Rúmeníu Nicolai Ceausesscu. Hann á einnig áritanir frá forsetum Afganistan, Israel og nokkrar frá látnum forsetum frá Afríku.

Jan segir söfnunaráráttuna koma í bylgjum og stundum líði langur tími þar sem hann gerir ekki neitt. Síðustu 2-3 ár hefur hann hinsvegar verið á fullu og skrifað bréf og tölvupósta til fjölda þjóðhöfðingja.

Jan á áritanir frá Steingrími Hermannssyni, Geir Hallgrímssyni, Vigdísi Finnbogadóttur, Ólafi Ragnari, Kristjáni Eldjárn og Ólafi Jóhannessyni.

„Ég skrifaði Steingrími, Geir og Vigdísi. En áritanirnar frá Kristjáni Eldjárn og Ólafi Jóhannessyni keypti ég af eiginhandaráritanafyrirtæki í Þýskalandi," segir Jan sem borgaði nokkur hundruð norskar krónur fyrir gripina.

Jan reynir nú að fá áritanir frá Þorsteini Pálssyni fyrrum forsætisráðherra og Ingibjörgu Sólrúnu utanríkisráðherra. Hann segist hafa skrifað þeim nokkrum sinnum ekki fengið neitt svar. „Ég hef skrifað Ingibjörgu þrisvar en hún hefur aldrei svarað mér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.