Íslenski boltinn

Willum: Vorum staðráðnir í að ná sigri

Elvar Geir Magnússon skrifar
Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson.

Valsmenn unnu 2-0 sigur á Þrótti í Landsbankadeildinni í kvöld. Þróttarar fögnuðu þó meira eftir leikinn enda er nú ljóst að liðið heldur sæti sínu í deildinni.

„Við vorum staðráðnir í því að ná sigri hér á heimavelli. Okkur fannst sem við ættum það inni hjá okkur sjálfum að gefa allt í þennan leik. Mér fannst við gera það ágætlega," sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals.

„Aðstæður voru erfiðar. Vindurinn var mikill en mér fannst leikmenn beggja liða leggja sig fram við það að halda boltanum á jörðinni. Menn vildu ekki láta vindinn taka yfir en í staðinn fengum við ekki mikla ógnun fyrir framan mörkin," sagði Willum.

Fyrri hálfleikur var hreint út sagt hundleiðinlegur áhorfs og lítið markvert gerðist. Í seinni hálfleiknum komu Valsmenn af miklum krafti til leiks og voru búnir að skora tvö mörk eftir rúmar fimm mínútur. Helgi Sigurðsson og Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoruðu mörkin.

„Við vorum ekki mjög sáttir við leik okkar í fyrri hálfeik og ræddum það að okkur fannst sem við gætum farið hvassar á markið. Við vorum að spila flatt og ákváðum að fara þetta í færri snertingum. Það var mikill kraftur í okkur í byrjun seinni hálfleiks og það skóp sigurinn," sagði Willum.

Valsmenn eru í harðri baráttu um Evrópusæti. „Eins og staðan er núna verður einn af úrslitaleikjunum um þetta þriðja sæti á sunnudaginn þegar við mætum Fram. Þetta er í okkar höndum að berjast um," sagði Willum að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×