Lífið

Bílablaðamennirnir ánægðir með rysjótt veðrið

Sýningarskálinn í Bláfjöllum er glæsilegur.
Sýningarskálinn í Bláfjöllum er glæsilegur.

Kynning á nýjustu kynslóð af Volkswagen Golf sem fram fer hér á landi þessa dagana hefur gengið vonum framar, þrátt fyrir rysjótt veður. Jón Trausti Ólafsson, markaðs- og kynningastjóri hjá Heklu segir að kynningin hafi vakið mikla lukku, jafnt hjá blaðamönnum sem og forsvarsmönnum Volksvagen.

„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð bæði frá Volkswagen sem eru með um 200 starfsmenn hér vegna verkefnisins og frá blaðamönnunum sjálfum," segir Jón Trausti og bætir við að veðrið hafi til þessa sett nokkuð strik í reikninginn. „Við hjá Heklu óttuðumst að menn yrðu fyrir vonbrigðum með veðrið sem hefur gengið yfir en það hefur hins vegar bara lagst vel í menn og þeim þykir algjört ævintýri að keyra við svona aðstæður og eru mjög ánægðir."

Kynningin stendur í þrjár vikur og lýkur henni í lok september. Hátt í 200 manns eru staddir hér á landi á vegum Volkswagen auk þess sem um 1500 blaðamenn munu hafa komið hingað til þess að reynsluaka nýjum Golf áður en yfir lýkur.

„Á hverjum degi koma hingað hátt í hundrað blaðamenn, þeir koma á hádegi fara í reynsluaksturinn upp í Bláfjöllum og eru síðan farnir daginn eftir," segir Jón Trausti en glæsilegur skáli hefur verið reistur í Bláfjöllum í tilefni kynningarinnar. Martin Winterkorn, stjórnarformaður Volkswagen samsteypunnar, kom hingað til lands í síðustu viku og var mjög ánægður með hvernig til hefur tekis að sögn Jóns Trausta.

Jón Trausti segir að ekki hafi verið rætt um fleiri verkefni af svipuðum toga í framtíðinni. „Þetta stendur út september og það liggja ekki fyrir önnur verkefni en það liggur alveg fyrir að sú umfjöllun sem Ísland hefur fengið í tengslum við kynninguna mun án efa vekja áhuga fleiri á landinu," segir Jón Trausti og bendir á að umfjallanir blaðamannana sem þegar eru teknar að birtast víða um heim snúi að miklu leyti um Ísland ekki síður en sjálfan bílinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.