Innlent

Samfylkingin á Akranesi vill endurskoðun á stjórn Seðlabankans

Samfylkingin á Akranesi vill endurskoða bankaráð og bankastjórn Seðlabankans.
Samfylkingin á Akranesi vill endurskoða bankaráð og bankastjórn Seðlabankans.

Samfylkingarfélagið á Akranesi telur að í kjölfarið á bankahruni og gjaldeyriskreppu hafi traust almennings á því stjórn- og eftirlitskerfi sem átti að tryggja öryggi fjármálakerfisins gersamlega brostið.

Félagið sendi frá sér ályktun nú í kvöld þar sem meðal annars kemur fram að trúverðugleiki stjórnmálamanna og Alþingis hafi einnig beðið mikið tjón.

„Samfylkingin var stofnuð til að vera boðberi nýrra og opnari stjórnarhátta. Það er því hlutverk hennar að leiða endurreisnarstarfið og það uppgjör við mistök í fortíð og nútíð sem óumflýjanlegt er," segir í ályktuninni.

„Samfylkingin á Akranesi telur að þær pólitísku forsendur sem lágu til grundvallar ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingarinnar við Sjálfstæðisflokkinn séu nú gjörbreyttar.

Samfylkingin á Akranesi telur nauðsynlegt að flokkurinn beiti sér nú af afli fyrir endurskoðun peningastefnu og gjaldmiðilsmála en jafnframt fyrir tafarlausri endurnýjun í fjármálaeftirliti, bankaráði og bankastjórn Seðlabankans. Hraða verður rannsókn á bankahruninu og fylgja því fast eftir að þeir axli ábyrgð sem hana bera.

Samfylkingin á Akranesi leggur sérstaka áherslu á forystu flokksins fyrir umræðu um aðild að Evrópubandalaginu. Í ljósi nýrra aðstæðna telur hún að ef samstarfs-flokkurinn í ríkistjórn tekur ekki afstöðu með hugmyndum Samfylkingarinnar í Evrópumálum sé hann í raun að slíta stjórnarsamstarfinu. Um leið leggur þetta Samfylkingunni þá skyldu á herðar að tryggja þjóðareign á auðlindum landsins með ákvæði í stjórnarskrá og að þess eignarhalds verði gætt að fullu fyrir hönd þjóðarinnar. Takist þetta ekki þarfnast Alþingi leiðsagnar þjóðarinnar og að kosningar verði því að fara fram í síðasta lagi um mitt ár 2009.

Á þeim erfiðu tímum sem nú blasa við ber jafnaðarmönnum að standa vörð um heimilin, atvinnulífið í landinu og velferð þjóðarinnar. Hafna skal með öllu kröfum, sem stefna velferðarkerfinu í hættu og leita strax allra leiða til þess að draga úr atvinnuleysi og níðþungri skuldabyrði almennings. Öllu verður til að kosta að afstýra fjöldagjaldþrotum heimilanna í landinu. Frá þessum markmiðum má ekki hvika."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×