Innlent

Áfengissala 30 prósentum meiri í október í ár en í sama mánuði í fyrra

MYND/Hörður

Velta í dagvöruverslun dróst saman um 1,3 prósent á föstu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Þar kemur enn fremur fram að þegar horft er til breytilegs verðlags hafi veltan hins vegar aukist um nærri fjórðung miðað við sama mánuð í fyrra. Þetta þýðir að fólk kaupir eilítið minna af mat í ár en greiðir mun meira fyrir hann en í fyrra. Bent er á að verð á mat hafi hækkað um fjórðung á einu ári, frá október í fyrra til október á þessu ári, þar af um fimm prósent á milli september og október í ár.

Tölur Rannsóknarsetursins sýna enn fremur að áfengissala jókst um nærri 30 prósent í október miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og um 44,3 prósent á breytilegu verðlagi. Skýringin á þessari miklu veltuaukningu í áfengisverslun er hið mikla hamstur sem átti sér stað þann 31. október þegar tilkynnt hafði verið um hækkun á áfengi sem tæki gildi 1. nóvember. Einnig ber að hafa í huga að í október síðastliðnum voru fimm föstudagar en í fyrra voru þeir fjórir. Föstudagar eru að jafnaði söluháir dagar í áfengissölu.

Þá dróst fatasala saman um 16,5 prósent á milli ára miðað við fast verðlag en skósala jókst um 2,6 prósent. Enn fremur minnkaði velta í húsgagnaverslun um nærri 45 prósent á föstu verðlagi miðað við október í fyrra og um 31,2 prósent á breytilegu verðlagi. Segir Rannsóknarsetrið þetta óvenjumikinn samdrátt en greinilegt sé að hrun bankanna í byrjun október hafi sett sitt mark á söu varanlegra neysluvara eins og húsgagna og annarra dýrra vörutegunda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×