Innlent

Mikil aðsókn hjá Mæðrastyrksnefnd

Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar.
Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar.

Vikuleg afgreiðsla Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur hófst klukkan 14 og er afar mikið að gera, að sögn Ragnhildar G. Guðmundsdóttur formanns nefndarinnar. ,,Ég er bæði að miða við seinustu úthlutanir okkar og fjölda fólks sem leitaði aðstoðar á sama tíma og í fyrra."

Aðsókn fólks eftir aðstoð Mæðrastyrksnefndar hefur aukist og farið stigmagnandi síðan í október. Ragnhildur segir að síðasta miðvikudag hafi hátt í 400 heimili fengið aðstoð en á sama tíma fyrir ári voru þau rúmlega 100.

Starfsemi Mæðrastyrksnefndar á mikið undir aðstoð og gjafmildi einstaklinga og fyrirtækja. Aðspurð hvort dregið hafi úr styrkveitingum til nefndarinnar segir Ragnhildur svo ekki vera.

,,Það berst til okkar mikið af vörum og öðrum gjöfum. Þetta er meira en undanfarin ár og var það nú gott fyrir. Það er greinilegt að Íslendingar eru miklu betra fólk en sumir vilja vera að láta," segir Ragnhildur og hlær.

Jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar hefst þriðjudaginn 16. desember og fer hún fram þetta árið í Borgartúni 25. Þangað til verður vörum úthlutað í húsnæði nefndarinnar í Hátúni 12.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×