Fótbolti

UEFA styður ákvörðun Webb

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Howard Webb knattspyrnudómari.
Howard Webb knattspyrnudómari. Nordic Photos / AFP

Talsmaður Knattspyrnusambands Evrópu segir að vítaspyrnudómur Howard Webb í leik Austurríkis og Póllands í gær hafi verið löglegur.

Webb dæmdi víti á leikmann Póllands fyrir að toga niður Sebastian Prödl í uppbótartíma leiksins í gær. Ivica Vastic skoraði úr vítinu og tryggði Austurríki jafntefli í leiknum, 1-1.

Leo Beenhakker, landsliðsþjálfari Póllands, var æfur vegna þessa eftir leikinn.

En William Gaillard, talsmaður UEFA, sagði að ákvörðun Webb væri vissulega samkvæmt reglunum. „Við teljum það ekki umdeilt ef víti er dæmt þegar leikmaður er togaður niður í vítateignum," sagði Gaillard.

Úrslitin þýða að Pólverjar eiga litla möguleika á að komast áfram í fjórðungsúrslit keppninnar en þeir töpuðu fyrir Þjóðverjum í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

„Þetta er eitthvað sem ég skil ekki," sagði Beenhakker. „En þetta þýðir að nú er þetta ekki lengur í okkar höndum og niðurstaðan er væntanlega sú að við erum úr leik á mótinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×