Innlent

Geir: Eðlilegt að greiða fyrir störfum skattrannsóknarstjóra

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, spurði forsætisráðherra að því í óundirbúnum fyrirspurnatíma hvort stjórnvöld ætli að láta það gerast að lykilgögn um stöðu íslensku bankanna sem er að finna á útibúum og dótturfyrirtækjum þeirra í Lúxemborg gangi yfirvöldum úr höndum verði fyrirtækin seld. Steingrímur vísaði meðal annars til hádegisfrétta Ríkisútvarpsins þar sem greint var frá því að skilanefndir bankanna hafi neitað skattrannsóknarstjóra um gögn frá Lúxemborg. Geir segir eðlilegt að greiða fyrir því að skattrannsóknarstjóri vinni sín störf.

Steingrímur hvatti til þess að sölu bankanna verði frestað þar til umrædd gögn séu komin fram þannig að bankaleynd í Lúxemborg verði ekki til þess að þau glatist.

Geir Haarde forsætisráðherra sagðist taka undir meginsjónarmið Steingríms í málinu og sagði hann mikilvægt að greiða fyrir því að skattrannsóknarstjóri vinni sín störf. Að hans mati er eðlilegt að skattrannsóknarstjóri fái umbeðin gögn. Síðan væri það álitamál hvort hagsmunum Íslands væri betur borgið í samstarfi við yfirvöld í Lúxemborg um að selja bankann eða halda honum í óbreyttu horfi og jafnvel eiga rýrari aðgang að gögnum.

Geir sagði að sér væri tjáð að unnt sé að koma Kaupþingi í Lúxemborg í verð en að slíkt samstarf verði háð því að stjórnvöld afsali sér í engu réttinum á því að afla gagna. „Ef eitthvað er ætti sú staða að styrkjast," sagði Geir.

Steingrímur fór þá aftur í pontu og sagði að fyrri hluti svars Geirs hafi hljómað vel en sá seinni hörmulega. Hann efaðist um að auðveldara yrði að sækja gögn í Lúxemborg eftir sölu bankanna enda væri bankaleynd þar í landi ein sú sterkasta í heimi. Að lokum krafðist hann þess að skattrannsóknarstjóri fái umbeðin gögn, helst fyrir helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×