Innlent

Getur vel verið að mistök hafi verið gerð

MYND/Vilhelm

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að vel geti verið að gerð hafi verið mistök á síðustu misserum en hann telji að íslensku bankarnari hefðu átt möguleika á að komast í gegnum erfiðleikana ef lausafjárkreppan hefði ekki skollið á af jafnmiklum þunga hér á landi og raun bar vitni. Hann sagði enn fremur að framferði Breta hefði verið tekið upp á vettvangi NATO af hálfu Íslendinga.

Í lok umræðu um stöðu bankakerfisins á Alþingi í dag sagði Geir enn fremur að margt í verkum bankanna hefði verið glannalegt og hugsanlega hefði átt að gera ráðstafanir til þess að minnka bankakerfið. Hann teldi hins vegar að ef bankarnir hefðu fengið tíma til að vinna á vandanum hefði verið hægt að bjarga þeim.

Nú segðu menn að ríkisstjórnin og Seðlabankinn hefðu gert mistök. Það gæti vel verið að gerð hefðu verið mistök en hann teldi að það hefði verið alveg sama til hvaða ráða menn hefðu gripið í lok september, bankarnir hefðu ekki getað fjármagnað sig. Sú hafi verið niðurstaðan eftir atburðina 15. september þegar bandaríski bankinn Lehman Brothers fór á hausinn.

Geir sagði að verið væri að reisa við bankakerfi um allan heim með þvílíkum stuðningi frá stjórnvöldum. Þar gengju fremst í flokki forysturíki alþjóðakapítalismans, Bandaríkin og Bretland. Þau stæðu ekki frammi fyrir því að allt þeirra bankakerfi hefði verið komið að fótum fram þótt margir stórir og fornfrægir bankar hefðu lagt upp laupana. Hins vegar hefðu bankarnir þrír hér á landi verið langstærstur hluti okkar bankakerfis. Geir sagðist telja að sú leið sem stjórnvöld hefðu farið í síðustu viku hefði verið sú rétta við þessar aðstæður.

Þá sagði hann það ófyrirgefanlegt af hálfu breskra stjórnvalda að hafa beitt hryðjverkalögum gegn íslensku fyrirtæki og óhugsandi að hans mati að slíkt hefði verið gert gagnvart stærri og voldugari þjóð. Íslendingar hefðu fylgt þessu máli eftir, meðal annars á vettangi NATO, en jafnframt yrði að eiga góð samskipti við Breta í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×