Innlent

Vilja yfirtaka rekstur Landsvirkjunar

Fjárfestingarsjóðurinn Riverstone Holdings vill yfirtaka rekstur Landsvirkjunar næstu ár og greiða áætlaðan hagnað fyrirfram. Fulltrúar frá fjárfestingarsjóðnum kynntu Landsvirkjun hugmyndina á fundi í síðustu viku.

Riverstone Holdings er bandarískur fjárfestingasjóður sem einbeitir sér að orkufyrirtækjum. Sjóðurinn kaupir upp tekjustrauma fyrirfram, það er greiðir út áætlaðan hagnað fyrirtækjanna fyrirfram og veðjar á að innkoman verði hærri. Mismunurinn ef einhver er rennur svo til Riverstone sjóðsins og að samningstíma loknum taka fyrri eigendur við rekstrinum á ný.

Nú beinir Riverstone athyglinni að eignum Landsvirkjunar. Tveir fulltrúar frá sjóðnum voru hér í síðustu viku og fengu áheyrnarfund hjá Landsvirkjun. Þeir kynntu starfsemi sjóðsins og reyndu einnig að fá fundi með ráðherrum en á þeim stóð, hvort sem um er að kenna áhugaleysi eða afleitri tímasetningu. Þeir voru hér þegar spilaborgin, íslenskt efnahagslíf, tók að hrynja.

Engar upphæðir voru nefndar á fundi Riverstone með Landsvirkjun en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur sjóðurinn áhuga á að kaupa upp tekjustrauma Landsvirkjunar eða einstakra virkjana, til næstu tíu til fimmtán ára.

Til samanburðar má benda á að hagnaður Landsvirkjunar á síðasta ári voru 28, 5 milljarðar króna og handbært fé frá rekstri, eða þeir peningar sem fyrirtækið skilaði tæpir 9 milljarðar.

Riverstone hefur yfir að ráða 14,8 milljörðum dollara og hefur síðustu átta ár fjárfest í fyrir 8 og hálfan milljarð dollara í meira en 50 fyrirtækjum í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Evrópu og Asíu.

Hvort um sé að ræða hákarla sem freista þess að ná einni verðmætustu þjóðareign Íslendinga á brunaútsölu eða gullið tækifæri til að fá gjaldeyri til landsins skal ósagt látið. Hins vegar er ljóst að Landsvirkjun er stór hlekkur í þeirri keðju sem þarf að reiða sig á til að koma þjóðarskútunni aftur á siglingu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×