Lífið

Richard Wright úr Pink Floyd látinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Pink Floyd á tónleikum.
Pink Floyd á tónleikum.

Richard Wright, hljómborðsleikari rokkhljómsveitarinnar Pink Floyd, lést í gær úr krabbameini, hálfsjötugur að aldri. Það var árið 1964 sem þeir skólabræður Roger Waters, Richard Wright og Nick Marson stofnuðu hljómsveitina Sigma six.

Fyrstu starfsárin voru enginn dans á rósum en haustið 1966 gekk Syd Barrett til liðs við sveitina og stakk þegar upp á því að nafni hennar yrði breytt í The Pink Floyd Sound, í höfuðið á blúslistamönnunum Pink Anderson og Floyd Council. Hét hljómsveitin það um tíma en síðan var nafnið stytt í Pink Floyd. Sígandi lukka er greinilega best því smám saman fór að blása byrlegar fyrir þeim félögum.

Síðsumars 1967 leit platan The Piper at the Gates of Dawn dagsins ljós en fljótlega upp úr því tók að bera á ýmsum brestum hjá Syd Barret vegna ofnotkunar LSD og var David Gilmour fenginn sem eins konar varagítarleikari fyrir hann. Það var svo árið 1973 sem tímamótaverkið Dark Side of the Moon kom út, næstsöluhæsta breiðskífa allra tíma á eftir Thriller með Michael Jackson og sú plata sem lengst hefur verið á bandaríska topp 200 listanum, alls rúm 14 ár.

Plöturnar Wish You were here og The Wall mörkuðu síðari straumhvörf hjá sveitinni en upp úr 1980 var sambandið milli þeirra félaga orðið ansi stirt og þeir lögðu endanlega árar í bát 1984.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.