Íslenski boltinn

Auðun spáir óvæntum úrslitum að Ásvöllum í kvöld

Elvar Geir Magnússon skrifar
KR og Grindavík mætast í annað sinn í sömu vikunni. Grindavík vann 2-1 í Landsbankadeildinni á mánudag.
KR og Grindavík mætast í annað sinn í sömu vikunni. Grindavík vann 2-1 í Landsbankadeildinni á mánudag.

Átta liða úrslit VISA-bikars karla fara fram í kvöld. Allir leikirnir hefjast klukkan 19:15 en Vísir fékk Auðun Helgason, varnarmann Fram, til að spá í spilin fyrir leikina. Auðun spáir að heimavöllurinn muni vega þungt í kvöld.

KR - Grindavík

„Ég er nokkuð viss um að þetta verði heimasigur. Grindvíkingar eru seigir en KR-ingar virtust hafa verið klaufar þegar liðin mættust fyrr í vikunni, allavega miðað við mörkin sem þeir fengu á sig. Ég held að þeir muni ná fram hefndum í kvöld."

Breiðablik - Keflavík

„Þarna eru að mætast tvö mjög jöfn lið. Ég hallast samt að sigri Blika, þeir hafa verið á mikilli siglingu og spila blússandi sóknarbolta. Blikar eru svona bikarliðið í ár, stemningin mikil. Ég held að hungrið hjá Keflavík sé meira í deildinni."

Fjölnir - Víkingur R.

„Endurkoma Daníels Hjaltasonar mun ekki duga Víkingum til að ná að leggja Fjölni. Víkingar hafa ekki verið sannfærandi í sumar og eru bara um miðja 1. deildina svo ég tel að Fjölnismenn vinni þennan leik."

Haukar - Fylkir

„Ég spái enn einum heimasigrinum þarna. Það verða óvænt úrslit í gryfjunni sem Haukar hafa. Þeir vinna í suð-austan strekkingi á gervigrasinu. Það er ekki til opnara svæði í Evrópu og þeir ná fram óvæntum úrslitum," sagði Auðun Helgason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×