Erlent

Graður nashyrningur strauk í stelpuleit

Óli Tynes skrifar
Hvar eru gellurnar?
Hvar eru gellurnar?

Það er fengitími hjá nashyrningum og hinn átján ára gamli Satara var orðinn hjólandi graður. Satara var fluttur frá Suður-Afríku til Ástralíu fyrir sex árum til undaneldis.

Hann hefur nú getið af sér tvö afkvæmi og til þess að koma í veg fyrir skyldleikaræktun var annar tarfur fenginn til þess að taka við af honum.

Stjórnendur dýragarðsins höfðu gleymt að taka með í reikninginn viðkvæmt tilhugalíf nashyrninga. Þegar Satara fékk veður af því að annar tarfur væri að hnusa utan í hans heittelskuðu var hann ekkert að tvínóna við hlutina.

Hann setti undir sig hausinn og dúndraði sínum tveim tonnum í gegnum hliðið á girðingunni sinni. Svo hófst mikill eltingaleikur sem lauk með því að skotið var í hann pílu með deyfilyfi.

Þrátt fyrir að Satara hafi sýnt eindreginn vilja til þess að halda áfram störfum verður nýi tarfurinn látinn sjá um frekari fjölgun í dýragarðinum.

Og aumingja Satara ? Dýragarðsstjórinn stakk upp á kaldri sturtu. Laun heimsins eru vanþakklæti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×