Innlent

Dæmt í máli tollvarðanna á Hressó

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt dóm í máli tveggja tollvarða sem ákærðir voru fyrir að misnota aðstöðu sína á skemmtistaðnum Kaffi Hressó í janúar síðastliðinn. Annar var sýknaður en refsingu yfir hinum var frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum, haldi hann skilorð.

Mennirnir stöðvuðu tvær konur, þóttust vera við fíkniefnaleit og sýndu tollvarðaskírteini sín því til staðfestingar. Þeir óskuðu eftir að fá að leita á konunum sem þær samþykktu. Þeir voru því ákærðir báðir fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína þegar þeir kynntu sig sem tollverði við eftirlit, þrátt fyrir að hafa verið í fríi. Þá var annar þeirra var ákærður fyrir gripdeild með því að hafa á brott með sér tösku annarar konunnar en hinn fyrir hylmingu því hann var með kortaveski konunnar á sér þegar hann var handtekinn á staðnum seinna um kvöldið.

Sá sem ákærður var fyrir gripdeild neitaði sök og krafðist sýknu í málinu en sá sem ákærður var fyrir hylmingu hélt ekki uppi vörnum í málinu.

Þegar lögregla kom á staðinn fannst veski konunnar á öðrum tollverðinum. Í því voru ýmis kort, þar á meðal gjafakort í Kringlunni og fjórir miðar í Hvalfjarðargöngin, eins og segir í dóminum.

Við skýrslutöku yfir konunum var gerð myndsakbending og fór svo að önnur þeirra gat ekki bent á umrædda menn en hin benti á annan þeirra en sagðist þó ekki vera viss í sinni sök.

Sá sem ákærður var fyrir gripdeild viðurkenndi að hafa verið á staðnum umrætt kvöld en hann þvertók fyrir að hafa verið með tollvarðaskilríki sín. Hins vegar hefði meðákærði verið með skilríkin sín sem sést hafi í af og til. Fyrir dómi sagðist hann hafa séð félaga sinn gefa sig á tal við nokkrar stúlkur án þess að hann gæti lýst því nánar. Hann hafi ekki rætt við þær. Ákærði sagðist hafa farið af staðnum stuttu eftir þetta.

Sá sem ákærður var fyrir hylmingu viðurkenndi að hafa verið við drykkju umrætt kvöld en að hann muni ekkert eftir atburðum sem gerðust eftir klukkan sex um kvöldið. Hann játaði hins vegar sök í málinu, hann hafi verið með veski stúlkunnar á sér og sá ekki ástæðu til að véfengja framburð stúlknanna. Maðurinn kvaðst hafa sagt upp störfum hjá tollinum undir mikilli pressu frá tollstjóra.

Í forsendum dómsins kemur fram að þrátt fyrir að annar mannana hafi játað sök í málinu verði ekki hjá því komist að leggja mat á þá sönnun sem fram hafi komið um brot hans. „Sú fullyrðing hans að hann muni ekki neitt frá veru sinni á veitingastaðnum er trúverðug og því verður ekki mikið lagt upp úr játningu hans," segir í dóminum.

Dómarinn taldi ekkert tengja hinn manninn við ákæruatriði málsins annað en þá staðreynd að hann hafi verið á veitingastaðnum á einhverju tímabili umrædda nótt. Hann var því sýknaður.

Við ákvörðun refsingar ákvað dómari að líta til þess að sá sem ákærður var fyrir hylmingu hafi látið af starfi sínu sem tollvörður og að hann hafi verið samvinnufús eftir getu við rannsókn málsins. Því þótti rétt að fresta ákvörðun refsingar undir almennu skilorði til tveggja ára.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×