Innlent

Gætu átt yfir höfði sér allt að sex til níu ára fangelsisdóm

Tollverðirnir tveir sem grunaðir um að hafa stolið veski af ungri konu á skemmtistað í Reykjavík um síðustu helgi gætu átt yfir höfði sér sex til níu ára fangelsisdóm.

Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum Hressó síðastliðið föstudagskvöld. Mennirnir framvísuðu skilríkjum frá Tollgæslunni og vildu fá að skoða veski konunnar. Sögðust þeir vera sinna fíkniefnaeftirliti. Þegar konan afhenti veskið sitt hljóp annar þeirra á brott með það. Málið var kært til lögreglunnar sem síðan handtók annan manninn. Hinn gaf sig fram síðar.

Mennirnir eru báðir starfandi tollverðir hjá Tollgæslunni og hefur hvorugur þeirra hefur verið leystur frá störfum. Annar þeirra neitar þó sök í málinu.

Snorri Olsen, tollstjóri í Reykjavík, sagðist í samtali við fréttastofu líta málið alvarlegum augum. Hann segir það afar slæmt ef í ljós kemur um misnotkun á skilríkjum og einkennisklæðnaði embættisins hafi veirð að ræða. Hann telur þó ekki tímabært að víkja mönnunum úr starfi fyrr en rannsókn lögreglu er lokið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er þegar búið að taka skýrslu af báðum mönnum. Fyrir liggur að taka skýrslu af vitnum og konunni sem kærði verknaðinn. Gert er ráð fyrir því að rannsókn málsins ljúki í byrjun næstu viku.

Mennirnir gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi fyrir þjófnað verði þeir sakfelldir. Auk þess gæti komið til allt að þriggja ára refsihækkunar og sekta þar sem mennirnir misnotuðu opinber skilríki og villtu á sér heimildir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×