Innlent

Borgarstjóri með lygaþvælu skrifaða á ennið

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.
Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir Ólaf F. Magnússon borgarstjóra ekki þann heilindamann sem hann segist vera. Í harðorðri yfirlýsingu frá Óskari segir hann borgarstjóra með lygaþvælu og svik skrifað á enni.

Tilefni yfirlýsingar óskar er önnur yfirlýsing sem Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, aðstoðarmaður borgarstjóra, sendi frá sér í morgun. Þar bað hún um vinnufrið í borginni og sagði að heiðarleika borgarstjóra skyldi ekki draga í efa, hvorki í ráðningarmáli miðborgarstjóra né öðrum málum.

„Auðvelt er að setja sig í spor starfsmanna á skrifstofu borgarstjóra, sem ræður ekki við það verkefni sem Sjálfstæðisflokkurinn fól honum, þegar ákall um miskunn berst frá aðstoðarmanninum. Slíkt undur hefur aldrei gerst í íslenskum stjórnmálum og verður enn einkennilegra þegar horft er til þess að umræðan um ráðningu framkvæmdastjóra miðborgarinnar hafði aðeins staðið í tvo daga þegar neyðarkallið barst," segir Óskar.

Segir borgarstjóra hafa logið tvisvar að minnihlutaflokkum

Þá segir einnig sérstakt að fullyrt sé að heiðarleiki borgarstjórans verði ekki dreginn í efa. „Að því tilefni er rétt að rifja upp að Ólafur F Magnússon hefur sennilega sýnt af sér mestu óheilindi sem nokkur stjórnmálamaður hefur gert svo mér reki minni til.

Á kosninganótt vorið 2006 tók hann upp viðræður við Framsóknarflokk, Samfylkingu og VG um myndun meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Í þeim viðræðum óskaði hann eftir því að taka hádegismat og úr því matarhléi kom hann ekki aftur. Hann endurtók síðan leikinn þegar hann myndaði meirihlutann við Sjálfstæðisflokkinn í janúa s.l. og laug að samherjum sínum allt fram að því að hann birtist í fjölmiðlum með málefnasamning við Sjálfstæðisflokkinn uppá vasann.

Að tala um heiðarleika og heilindi með lygaþvæluna og svikin frá sjálfum sér skrifað á ennið er móðgun við alla þá sem ennþá fylgjast með þessum farsa," segir Óskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×