Enski boltinn

Keane: Níu liða fallbarátta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Keane, stjóri Sunderland.
Roy Keane, stjóri Sunderland. Nordic Photos / Getty Images

Roy Keane, stjóri Sunderland, segir að níu lið eigi það á hættu að falla úr ensku úrvalsdeildinni og að ekkert lið sé of stórt til að falla.

Keane féll á sínum tíma úr ensku úrvalsdeildinni með Notthingham Forest þegar liðið var undir stjórn Brian Clough.

„Það er mikil barátta í neðri hluta deildarinnar þar sem sjö, átta eða níu lið geta blandast í fallbaráttuna. Þetta er mjög athyglisverð staða," sagði Keane.

Hann segir einnig að það sé ekkert lið of stórt til að falla og mætti ef til vill túlka ummælin sem svo að grannliðið Newcastle sé ekki hólpið.

„Nottingham Forest féll þegar ég var þar og voru nokkrir mjög góðir leikmenn í liðinu. Stöðutaflan lýgur ekki og í upphafi tímabilsins sagði ég að besta liðið myndi vinna deildina og þau þrjú lélegustu myndu falla."

Sunderland mætir Everton á sunnudaginn en Roy Keane og lærisveinar hans eru í fimmtánda sæti deildarinnar með 27 stig. Middlesbrough er í níunda neðsta sæti deildarinnar með 29 stig, sex stigum á undan Bolton og Reading sem eru í 17. og 18. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×