Enski boltinn

Vill lífstíðarbann fyrir hættulegar tæklingar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cesc Fabregas átti erfitt með sig eftir að hafa séð ökklameiðsli Eduardo.
Cesc Fabregas átti erfitt með sig eftir að hafa séð ökklameiðsli Eduardo. Nordic Photos / Getty Images

Sepp Blatter, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, vill dæma þá leikmenn sem stofna öðrum leikmönnum í hættu í lífstíðarbann.

Eitthvert ljótasta brot síðari ára leit dagsins ljós þegar að Martin Taylor, leikmaður Birmingham, braut á Eduardo, leikmanni Arsenal, með þeim afleiðingum að ökklinn afmyndaðist afar mikið. Eduardo verður frá í að minnsta kosti níu mánuði.

„Hættulegar tæklingar er eitt mikilvægasta málefnið í knattspyrnunni þessa stundina," sagði Blatter í samtali við Telegraph. „Þeir leikmenn sem verða uppvísir að slíkum tæklingum viljandi á að útiloka frá íþróttinni."

Blatter segir að það eigi jafnvel að sækja viðkomandi til saka. „Það er glæpsamlegt að ráðast á einhvern. Hvort sem það gerist á knattspyrnuvellinum eða annars staðar. Það er glæpsamlegt og á að meðhöndla sem slíkt."

Stjórn FIFA mun funda um helgina þar sem þetta mál verður meðal þess sem rætt verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×