Innlent

Lengri biðröð en vanalega hjá Mæðrastyrksnefnd

Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar.
Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar.

Vikuleg afgreiðsla Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur hefst klukkan 14 og segir Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, formaður nefndarinnar, að fjölmennari hópur en oft áður bíður eftir aðstoð. ,,Það er alltaf einhver biðröð og ég viðurkenni að hún er lengri en vanalega."

Aðsókn fólks eftir aðstoð Mæðrastyrksnefndar hafi aukist allt frá því í fyrrahaust. ,,Við reynum bara að vera kerlingalegar, mjúkar og góðar og tökum vel á móti þeim sem koma til okkar," segir Ragnhildur og hlær.

Mæðrastyrksnefnd á mikið undir aðstoð og gjafmildi einstaklinga og fyrirtækja. Aðspurð hvort dregið hafi úr styrkveitingum til nefndarinnar frá fyrirtækjum segir Ragnhildur svo ekki vera.

,,Við höfum átt góða að hjá mörgum fyrirtækjum og við finnum ekki að það hafi dregið úr því," segir Ragnhildur og bætir við að líkt og góðar húsmæður hafi nefndin alltaf fyrirhyggju á hlutunum og forðist óþarfa áhyggjur.

,,Aftur á móti veit enginn ævi sína fyrir en öll er. Ástandið í þjóðfélaginu er vissulega erfitt," segir Ragnhildur.

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur er til húsa í Hátúni 12b og afgreiðir mat og fatnað á miðvikudögum á milli klukkan 14 og 17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×