Innlent

Sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi reiðir vegna Icesave

Sparifjáreigendur sem eiga innstæður hjá Icesave í Bretlandi og Hollandi eru sárreiðir, segir breskur sparifjáreigandi í viðtali við fréttastofuna. Umræðurnar eru eldfimar á hollenskum bloggsíðum.

Í Englandi treystu um 300 þúsund manns Icesave fyrir sparifé sínu en eins og fram hefur komið hafa allar innstæður verið frystar. Fréttastofa ræddi við Lundúnabúa sem lagði inn hjá Icesave, en hann segist sjálfur ekki reiður út í bankann, þar sem innistæðan hafi ekki verið há. Hann segir hins vegar marga reiða vegna þessa.

Í fréttum í Bretlandi hafa verið tekin viðtöl við fólk sem hafa átt háar innistæður í Icesave og horfa til þess að tapa miklu fé.

Í Hollandi lögðu um 100 þúsund manns sparifé sitt í Icesave. Þegar í upphafi vikunnar fóru þarlendir að átta sig á alvarleika fjármálakreppunnar á Íslandi og hófu sparifjáreigendur í Icesave að taka út innistæður sínar. Á bloggsíðum má lesa að í gær að sumir hafi enn getað tekið út fé sitt en með miklum erfiðleikum þó.

,,Þetta er ótrúlegt - sorglegt og ekki hægt að trúa því sem er að gerast," er meðal þess sem segir á spjallsíðum. Í morgun var allt lokað og læst hjá Icesave og aðeins tilkynning á heimasíðu bankans á netinu þar sem reynt er að róa viðskiptavinina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×