Innlent

Helst hætta á hryðjuverkum við sendiráð

Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur að möguleg skotmörk hryðjuverkamanna á Íslandi geti verið ferðamenn eða sendiráð erlendra ríkja.

Árás á erlend fyrirtæki á Íslandi gæti einnig í huga hryðjuverkamanna falið í sér vel heppnaða atlögu að hagsmunum einhvers ríkis sem þeir hatist við. Þá sé unnt að valda mjög alvarlegum áföllum með árásum á tölvukerfi t.d veitustofnana, fjármálafyrirtækja og stjórnarráðsins.

Samkvæmt mati greiningardeildar er hætta á hryðjuverkum hér á landi lítil og ekki séu fyrirliggjandi sérstakar upplýsingar um að verið sé að skipuleggja eða undirbúa hryðjuverkaaðgerðir gegn skotmörkum eða viðburðum hérlendis.

Í skýrslu greiningardeildarinnar um hættu á hryðjuverkum hér á landi segir að aukin alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi og greiðari för fólks milli landa hafi í för með sér aukna hættu á að hérlendis verði framin hryðjuverk eða fram fari undirbúningur hryðjuverkaárása í öðrum löndum. Ísland og íslenskir hagsmunir gætu orðið fyrir alvarlegum skaða ef hérlendis færi fram undirbúningur að hryðjuverki í öðru landi eða rekja mætti árásir til þess að íslensk stjórnvöld hefðu ekki sinnt alþjóðlegum skuldbindingum um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi.

Bent er á fjölda hryðjuverkaárása frá því að árásirnar á Bandaríkin dundu yfir árið 2001 og sömuleiðis að komið hafi verið í veg fyrir fjölda hryðjuverka á undanförnum árum svo sem í Bretlandi, Danmörku og Þýskalandi. „Ljóst er að hryðjuverk geta átt sér stað á Íslandi og einnig undirbúningur og skipulag hryðjuverka gagnvart öðrum löndum," segir greiningardeildin í skýrslunni.














Tengdar fréttir

Menn fluttir inn til landsins aðeins til að fremja afbrot

Greiningardeild Ríkislögreglusstjóra segir að fyrir liggi að austur-evrópskir ríkisborgarar séu „fluttir inn“ hingað til lands í þeim einum tilgangi að fremja afbrot. Vísbendingar séu um að starfsemi skipulagðra erlendra glæpahópa sé mun umfangsmeiri en flestir höfðu ætlað.

Grunur um starfsemi mansalshringa hér á landi

Vísbendingar eru um að erlendir aðilar komi í auknum mæli að skipulögðu vændi á Íslandi og grunur leikur á að sú starfsemi tengist mansalshringum einkum í Austur-Evrópu.

Fáfnir í formlegum tengslum við alþjóðleg glæpasamtök

Íslenski mótorhjólaklúbburinn Fafner MC-Iceland hefur stofnað til formlegra tengsla við skipulögð alþjóðleg glæpasamtök með því að gerast stuðningsklúbbur Hells Angels vélhjólasamtakanna. Svo segir í nýrri skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×