Erlent

McCartney stóð að baki pólitík Bítlanna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Analitica.com

Bítillinn Paul McCartney heldur því fram að það hafi verið hann en ekki John Lennon sem stóð á bak við pólitískar skoðanir Bítlanna.

Það var í kjölfar áhrifamikils fundar McCartney með heimspekingnum Bertrand Russell sem andóf Bítlanna gegn Víetnam-stríðinu hófst, segir Bítillinn roskni í viðtalið við tímaritið Prospect. McCartney, sem var aðlaður árið 1996 og ber því nafnbótina Sir, segist hafa hitt Russell í Chelsea um miðjan sjöunda áratuginn og heyrt fyrst um stríðið í Víetnam hjá honum en það var þá ekki á allra vitorði og ekki orðið umtalsefni fjölmiðla að neinu ráði.

McCartney segist hafa orðið hugfanginn af málflutningi Russell og rætt málið við John Lennon á næstu æfingu. Í kjölfarið hafi svo hljómsveitin tekið einarða afstöðu gegn Víetnam-stríðinu svo sem heyra mátti í textum og flestu því sem sveitin lét frá sér fara. Almennt hefur það verið hald manna að John Lennon hafi verið upphafsmaður stríðsandófsins og margir vilja meina að McCartney skreyti sig þarna með stolnum fjöðrum.

Ljóst er að Lennon mun ekki geta tekið afstöðu til þessara ásakana, að minnsta kosti ekki hérna megin landamæranna miklu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×