Innlent

Höggið þungt fyrir elstu sjóðfélagana

Íslenski lífeyrissjóðurinn, sem Landsbankinn rekur, kappkostaði sölu á innlendum og erlendum hlutabréfum til að lágmarka áhættu sjóðsfélaga mánuðina fyrir bankahrunið. Fénu var að stórum hluta varið til kaupa á skuldabréfum viðskiptabankanna sem urðu nær verðlaus við setningu neyðarlaganna í október. Þetta varð reiðarslag fyrir sjóðsfélaga; ekki síst fyrir eldri borgara sem höfðu valið ávöxtunarleið sem nær alfarið samanstóð af skuldabréfum. Niðurstaða lífeyrissjóðs í vörslu Kaupþings var mun betri þar sem áhersla var lögð á kaup á ríkistryggðum skuldabréfum.

Í bréfi til sjóðfélaga harma forsvarsmenn Íslenska lífeyrissjóðsins niðurstöðuna og boða óhjákvæmilega skerðingu lífeyrisgreiðslna á næsta ári. Þar segir að stórum hluta þeirra fjármuna sem losnuðu við sölu hlutabréfa hafi verið varið til kaupa á skuldabréfum viðskiptabankanna „enda lítið framboð á ríkistryggðum skuldabréfum á sama tíma".

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, sem rekinn er af eignastýringu Kaupþings, segir að öruggasta ávöxtunarleiðin hafi skilað 23,1 prósents nafnávöxtun. Ástæðan er að Kaupþing lagði meiri áherslu á kaup á ríkisskuldabréfum en skuldabréfum fjármálastofnana og fyrirtækja.

Nafnávöxtun Íslenska lífeyrissjóðsins var neikvæð um tuttugu prósent á fyrstu ellefu mánuðum ársins óháð ávöxtunarleið. Leiðin sem ber mesta áhættu skilaði 20,4 prósenta neikvæðri ávöxtun samanborið við 20,1 prósent þar sem áhættan átti að vera lítil sem engin. Ef litið er til tímans frá bankahruninu er rýrnunin enn meiri eða rúm þrjátíu prósent eins og gögn eins sjóðfélaga Íslenska lífeyrissjóðsins sýna glöggt.

Hann er 63 ára karlmaður sem hefur greitt í séreignarsparnað frá árinu 1999. Hann átti tæplega sjö og hálfa milljón í október en eign hans hafði rýrnað um tvær og hálfa milljón króna þegar honum barst bréf forsvarsmannanna. Sparnaðarleiðin sem hann valdi er hugsuð fyrir sjóðfélaga sem ekki mega við því að taka mikla áhættu, aðallega fólk 65 ára og eldra. svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×