Erlent

Einar mestu óeirðir til þessa

Hópar manna fóru um miðborg Aþenu í fyrrinótt með báli og brandi.
Hópar manna fóru um miðborg Aþenu í fyrrinótt með báli og brandi.

Þrjátíu manns voru handteknir í fyrrinótt í einum mestu óeirðum sem brotist hafa út í Aþenu frá því að hinn 15 ára Alex Grygoropoulos var skotinn til bana af lögreglumanni á laugardaginn í síðustu viku. Þetta kom fram í gríska dagblaðinu Ta Nea í gær.

Í fyrradag voru haldnar minningarathafnir um piltinn víða um landið. Þær fjölmennustu voru á Stjórnarskrártorginu í miðborg Aþenu og svo í hverfinu Exarheía þar sem hann var skotinn.

Um nóttina fóru svo hópar manna um miðborgina með eldsprengjur og kveiktu í bílum, verslunum, bönkum og fleiru sem fyrir varð.

Í dag tekur gildi rýmri opnunartími verslana í Grikklandi í aðdraganda jóla en verslunarmenn eru afar svartsýnir og telja að viðskiptin í ár geti orðið allt að 70 prósentum rýrari en í fyrra.

Þar við bætist að verslunarhverfi borgarinnar eru illa farin eftir óeirðirnar sem staðið hafa í rúma viku og bjóða margar verslanir upp á allt að 50 prósenta afslátt til þess að reyna að ýta við kaupendum. Kostas Karamanlis forsætisráðherra hefur þó sagt að reynt verði að bæta tjón verslunareigenda eftir fremsta megni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×