Erlent

Einn af aðalstjórnendum Arellano-Felix-hringsins gripinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Eduardo Arellano-Felix.
Eduardo Arellano-Felix. MYND/AFP/Getty Images

Mexíkósk yfirvöld handtóku um helgina einn af áhrifamestu höfuðpaurum alræmds fíkniefnahrings sem hefur aðsetur í Tijuana.

Eduardo Arellano-Felix var handtekinn í umfangsmikilli lögregluaðgerð á laugardaginn eftir að ábendingar bárust lögreglu um hvar hann væri niðurkominn. Hann gengur næst frænda sínum, Fernando, að völdum innan Arellano-Felix-fíkniefnahringsins sem dregur nafn sitt af fjölskyldunni. Ellefu systkini, sjö bræður og fjórar systur, erfðu starfsemina eftir Miguel Felix Gallardo þegar hann var handtekinn árið 1989.

Síðan hefur þessu stóra fjölskyldufyrirtæki verið skipt í tvennt og stjórnar Eduardo Garcia Simental hinum hlutanum. Hreyfingarnar tvær eru taldar bera ábyrgð á nánast öllum ofbeldisverkum og fíkniefnasölu í mexíkósku borginni Tijuana. Heimildamenn innan bandarísku fíkniefnalögreglunnar segja handtöku Eduardos um helgina stórt skref í því að lama Arellano-Felix-hringinn. Hann er einn af síðustu stórlöxunum innan hringsins sem eftirlýstir eru af lögreglu. Lögregla segir lokaskrefið vera að handsama Fernando frænda hans sem hefur töglin og hagldirnar í starfseminni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×