Innlent

Dregið úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði

Ríkisútvarpið mun fá tæplega þrjá komma sjö milljarða króna á ári með innheimtu nefskatts samkvæmt frumvarpi menntamálaráðherra. Tekjur Ríkisútvarpsins aukast við þetta um rúmar 600 milljónir króna á ári. Á móti verður dregið úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

Frumvarp menntamálráðherra var kynnt stjórnarþingmönnum í gær. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að dregið verði úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði.

Þannig má hlutfall auglýsinga á svökölluðum kjörtíma milli klukkan sjö og tíu á kvöldin ekki fara yfir 5 prósent af útsendingartíma eða 9 mínútur og ekki yfir 10 prósent á öðrum tíma.

Aðeins verða tveir auglýsingartímar leyfðir á hverri klukkustund og mega þeir ekki vera lengri en 200 sekúndur.

Óheimilt verður að rjúfa dagskrárliði sem eru styttri en 45 mínútur með auglýsingatíma og þá verður kostun dagskrárefnis bönnuð nema þegar um stórviðburði er að ræða.

Auglýsingar í kringum barnatíma verða einnig bannaðar.

Sérstakur nefskattur, að upphæð sautjánþúsund og níu hundruð krónur, verður tekinn upp í stað útvarpsgjalds. Skatturinn verður lagður á einstaklinga og fyrirtæki og skilar RÚV um 3,7 milljörðum króna á ári. Er þetta aukning upp á 23 prósent miðað við núgildandi reglur eða rúmar 600 milljónir í krónum talið.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×