Íslenski boltinn

Davíð Þór: Áttum þetta skilið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson var ánægður með sína menn.
Davíð Þór Viðarsson var ánægður með sína menn. Mynd/Daníel
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var kampakátur í leikslok eftir sigur sinna manna á Keflavík í dag.

Með sigrinum eiga FH-ingar enn möguleika á Íslandsmeistaratitlinum en þurfa að stóla á að Fram geri Keflvíkingum skráveifu í lokaumferðinni.

„Þetta var frábært. Við vorum tilbúnir frá fyrstu mínútu og mér fannst við eiga þetta fyllilega skilið. Við vorum samt algjörir aular að hleypa þeim aftur inn í leikinn."

FH var í góðri stöðu, 2-0, þegar um stundarfjórðungur var til loka og Keflvíkingar náðu að jafna metin á stuttum tíma. Atli Viðar Björnsson tryggði hins vegar FH sigur með marki á lokamínútunum.

„Við vorum bara kærulausir. Við vorum að sækja á of mörgum mönnum í þessari stöðu. Þeir komust í upphlaup og nýttu sér það enda öflugir í skyndisóknum. En mér er svo sem alveg sama þar sem við unnum í lokin."

FH mætir Breiðabliki í frestuðum leik á miðvikudaginn og verða að vinna til að halda meistaravonum sínum á lífi.

„Nú eigum við tvo úrslitaleiki eftir og það er vonandi að Framarar geri Keflvíkingum grikk eins og þeir gerðu okkur grikk. Þá verðum við Íslandsmeistarar, þannig er það bara."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×