Íslenski boltinn

Davíð Þór: Kíki í heimsókn til Auðuns

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson, leikmaður FH.
Davíð Þór Viðarsson, leikmaður FH.
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var vitanlega sáttur við 3-0 sigur sinna manna á Breiðabliki í dag.

Úrslitin þýða að FH á enn möguleika á Íslandsmeistaratitlinum en þurfa að stóla að Fram nái hagstæðum úrslitum í Keflavík í lokaumferðinni á laugardaginn. Um leið þarf FH að vinna Fylki.

„Það var frábært að vinna þennan leik sannfærandi og við erum mjög sáttir," sagði Davíð í samtali við Vísi eftir leik.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn reyndar vera svolítið sérstakur. Við spiluðum ágætlega en mér fannst samt vanta smá kraft í okkur. Við náðum þó að skora þrjú mörk og þeir sköpuðu sér varla neitt. Við vorum svo skynsamir í seinni hálfleik og óheppnir að hafa ekki bætt við fleiri mörkum."

Úrslit Íslandsmótsins gætu ráðist á markatölu ef FH vinnur Fylki og Keflavík og Fram gera jafntefli. Keflavík hefur eins marks forystu á FH í þeim efnum auk þess sem liðið hefur skorað fleiri mörk.

„Ég neita því ekki að það hefði verið gott að fá fjórða markið því nú þurfum við að vinna með tveggja marka mun í Árbænum ef Fram nær jafntefli í Keflavík. Við gerum það þá bara ef til þess kemur."

„Við erum staðráðnir í að vinna Fylki og ætlum okkur að setja eins mikla pressu á Keflvíkinga og við mögulega getum. En þetta er vissulega í þeirra höndum."

Fyrrum liðsfélagi Davíðs hjá FH, Auðun Helgason, er nú leikmaður Fram sem mæta Keflvíkingum á laugardaginn.

„Ég kíki í heimsókn til hans og lofa honum einhverju góðu ef þeir klára þetta fyrir okkur," sagði Davíð í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×